föstudagur, október 06, 2006

Dýr sigur. Rándýr sigur. (Habban skrifar)

Eftir að hafa drullað upp á bak í síðustu tveimur leikjum var ekki erfitt að mótivera sig fyrir leikinn gegn Stjörnunni. Við vildum sýna hinum frábæru stuðningsmönnum okkar að við gætum betur en þetta, við vildum skemmta þeim og okkur sjálfum og koma því á framfæri að við yrðum með í baráttunni í vetur. Ónefndur leikmaður Stjörnunnar hellti svo olíu á eldinn með því að lýsa því yfir að einu raunverulegu keppinautarnir þeirra í vetur væru Haukar! Þessi ónefndi leikmaður fær hér með sérstakar þakkir fyrir eina massívustu mótiveringu síðari ára!

Þrátt fyrir góðar meiningar og einbeittan vilja voru upphafsmínúturnar gegn Stjörnunni daprar af okkar hálfu. Færanýtingin var eins og áður...döpur. Eftir 5 mínútna leik var staðan 2-5 og tíu mínútum síðar 6-10. Við fórum illa með nokkur góð færi á að minnka muninn enn frekar, Stjarnan fór að hökta en við náðum ekki að færa okkar það almennilega í nyt. Pavla klukkaði nokkra rándýra bolta á mikilvægum augnablikum og síðustu 10 mínútur hálfleiksins fór Valsmaskínan að hrökkva í gírinn. Með breyttum varnarleik og innkomu gullplattans J og Öllunnar náðum við að minnka muninn í tvö mörk, 9-11.
Ónefndur spekingur ku hafa sagt í hálfleik að við myndum vinna leikinn 23-21, við misjafnar undirtektir, en gott er til þess að vita svona eftir á að sumir hafa tröllatrú á okkur!
Strax í upphafi seinni hálfleiks var nokkuð ljóst hvert stefndi, rauðklæddu dívurnar ætluðu sér sigur og spurningin var bara sú hversu stór hann yrði. Hvert glæsimarkið rak annað og fyrr en varði vorum við komnar fjórum mörkum yfir. Í síðari hálfleik náðum við að sýna hvers við erum megnugar, vörnin var hrikaleg og sóknarleikurinn gekk eins og smurð vél. Fjögurra og fimm marka forysta sló eilítið kæruleysi í mannskapinn og Stjarnan náði að minnka muninn, en jafnvel þótt einhverjir áhorfendur kunni að hafa verið orðnir órólegir vissum við allan tímann að málið væri dautt. Það þarf jú að halda spennu í þessu til að skemmta áhorfendum!

Liðið átti allt fínan leik, sérstaklega í seinni hálfleik, en líklega er ekki að nokkrum vegið þótt Pavla fái afhentan Hinn gullna trommukjuða.
Ágúst þjálfari fær sérstaka heiðurstilnefningu fyrir hreint út sagt ótrúlega takta á hliðarlínunni; stökkkrafturinn er ótrúlegur, hárstrokurnar kynþokkafullar og hraðinn sem hann náði frá tímavarðarborði út að enda varamannabekkjarins með því besta sem sést hefur í Höllinni. Það er ekkert smáræði í ljósi þess að á þessu sama gólfi hafa nokkrar helstu íþróttahetjur þessa heims sýnt allar sínar bestu hliðar.

Að lokum verðum við að þakka Sambakóngunum sérstaklega fyrir ómetanlegt framlag þeirra. Hinn frumsamdi sambataktur ku vera orðinn vinsæll bæði á google og youtube. Leitendur verða hins vegar fyrir vonbrigðum því Sambakóngarnir eru Valsmenn...og bara Valsmenn.

Hafrún Kristjánsdóttir

Comments: Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?