föstudagur, nóvember 17, 2006

Dríbban úti í bili


Í gær kom í ljós að Drífa okkar Skúladóttir er ristarbrotin og verður af þeim sökum frá í u.þ.b. 6 vikur. Þetta er mikið áfall fyrir okkur Valsstúlkur því við eigum mikilvægan leik fyrir höndum gegn ÍBV á sunnudaginn. Eftir þann leik kemur hins vegar löööööng pása og því má segja að það sé lán í óláni að þetta gerðist núna - fyrir okkur það er að segja en Drífa missir af undankeppni HM með landsliðinu :(
Eitthvað hafa meiðslin verið að hrjá okkur undanfarið - Anna er meidd á ökkla og er á leiðinni í aðgerð, Kata og Arna slæmar í baki, Brynja alltaf tæp í hásinunum og Silla ekki alveg nógu góð í hnjánum. Undirrituð er eiginlega sú eina sem heldur uppi heiðri eldri leikmanna því Habban er magaveik og með króníska beinhimnubólgu og Lilja fór í aðgerð í haust! 7-9-13!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Mynd vikunnar


Valur - Fram

Eftir grátlegan leik gegn Fram í fyrstu umferð deildarinnar var ekkert annað en sigur sem kom til greina hjá okkur Valsskutlum þegar við mættum Fram öðru sinni í vetur. Liðið mætti vel einbeitt og staðráðið í að gefa ekki tommu eftir í þetta skiptið. Að vanda vorum við gríðarlega fallegar enda lögðum við sérstaka áherslu á fallega brúnku og ný litað hár enda ekki annað hægt fyrir sjónvarpsleik. Við vorum sem sagt til í tuskið! Leikurinn byrjaði heldur rólega og var jafnt framan af og hálfleikstölur 11-10 okkur í vil. Í hálfleik gerðust undur og stórmerki. Herra Ágúst tók upp á því að æsa sig. Þetta nýja trix greinilega svínvirkaði þar sem við byrjuðum seinni hálfleik með stæl. Skoruðum 3 mörk í röð og vorum gjörsamlega óstöðvandi;) með Ágústu mann leiksins, Brynju og Höbbuna í broddi fylkingar. Um miðjan hálfleikinn höfðum við síðan náð 6 marka forystu og hún var ekki látin af hendi eftir það. Lokatölur urðu 28-20 og það að sjálfsögðu fyrir okkur!

Markaskor: Ágústa 9/13, Alla 5/10, Habba 4/5, Kata 3/4, Arna 3/5, Silla 2/3, Brynja 2/6 :)

Merkir atburðir í leiknum:

Ágústa gerði sér lítið fyrir og skoraði með vinstri.
Gústi og Kalli sögðu ekkert við dómarana, einmitt!
Hnéið á Brynju tók heimsmet í yfirréttu!
Guðrún spilaði sinn fyrsta leik :)
Gústi og Kalli voru salla rólegir, einmitt!

Takk fyrir mig Katie

FH - Valur

Síðasta fimmtudag þann 9.nóv kepptum við leik við fh-stelpur í deildinni. Vorum við mjög vel stemmdar og ekkert annað en sigur kom til greina af okkur hálfu. Við byrjuðum leikinn af krafti, enda stóð vörnin fyrir sínu og markvarslan eftir því. Upp úr því uppskárum við hraðaupphlaupin sem er eitt af okkar sterkustu vopnum og skoruðum nokkur mörkin þannig. Höfðum yfirhöndina allan tíman og leiddum í hálfleik 16-6.

Í seinni hálfleik hleyptum við fh-stelpum óþarflega mikið inn í leikinn, gerðum of mikið af klaufalegum mistökum en þó var aldrei nein hætta á ferð. Unnum við leikinn með 9 mörkum. 30-21.

Kveðja sófý ;)

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Valur – Akureyri, 27-20

Með ,,glæsilegum” sigri okkar á Akureyri síðastliðinn sunnudag náðum við topp sæti deildarinnar. Það verður að segjast að þetta var frekar dapur leikur af okkar hálfu og virkuðum við andlausar og áhugalitlar. Sem er nú frekar lélegt af okkur og þá sérstaklega gagnvart áhorfendum okkar sem eru mun ,,stabílli” en við og hvetja okkur alltaf áfram af stakri snilld.
Leikurinn byrjaði frekar rólega og skoruðu þær fyrsta mark leiksins en staðan var 0-1 þegar 6 mínútur voru liðnar af leiknum. Við náðum þó fljótlega forystunni og var staðan 11-9 í hálfleik. Leikurinn var í raun aldrei spennandi og svona nokkuð öruggt að við myndum sigra hann og komumst við mest í 10 marka mun í seinni hálfleiknum. Hefðum þó átt að geta unnið mun stærra ef við hefðum spilað samkvæmt eðlilegri getu –með fullri virðingu fyrir Akureyraliðinu sem barðist á fullu allan tímann.
Ester var best í Akureyrarliðinu og skoraði 11 mörk á okkur, en vorum við engan vegin að ganga nógu vel út í hana í vörninni. Sigurbjörg var líka að verja vel á móti okkur og klúðruðum við allt of mörgum dauðafærum, sést það best á nýtingu undirritaðar sem er eins og skytta með 50% markahlutfall. Maður hefur jú alltaf litið á sig sem frekar hávaxna manneskju og býð ég eftir kallinu hjá Gústa og Kalla um stöðu sem hægri skytta í liðinu ;o) Annars kom Soffía þar sterk inn og skapaði færi fyrir Hildi í horninu. Hildigunnur nýtti sénsinn sinn vel í sókninni og var eina sem var að nýta skotin sín almennilega, hún átti stórleik með 10 mörk og voru útileikmenn að finna hana mjög vel í þessum leik.
Alla, Brynja og Hafrún hvíldu í þessum leik og fengu margar að spreyta sig sem er frábært mál hjá þjálfurunum. En við erum 19 manna hópur og hver annarri betri og því oft erfitt val hjá þeim bræðrum. Það sem kannski stendur því upp úr í leiknum eru fyrstu mörk Hildar Sifjar og Grétu fyrir hönd okkar í m.fl. og voru þær formlega vígðar inn í hópinn eftir leikinn samkvæmt fornri hefð handboltaheimsins.
En það má þó ekki gleyma því að sigur er sigur og allir jafn mikilvægir. Með þessum sigri komumst við í 1.sæti deildarinnar og er ekkert nema eintóm hamingja yfir því.

Kveðja, Arna stjarna

mánudagur, október 23, 2006

ÆLA, ÆLA og aftur ÆLA!!!

Ég held að það sé óhætt að segja að ælupest hafi herjað á okkur valsstelpur fyrir leikinn í gærkveldi á móti Haukum. Rebekka gat ekki keppt vegna þess að hún hafði ælt allan daginn, undirrituð ældi allan laugardaginn og til þess að toppa æluna gubbaði Alla í bílnum á leiðinni í leikinn!!!! En við létum þessa ælupest ekki á okkur fá og vissum hve mikilvæg stigin tvö voru. Þannig að við brettum upp ermarnar og gáfu allar smá ekstra í púkkið. Leikurinn byrjaði frekar illa þar sem að við áttum erfitt með að stoppa örvhenta stórskyttu Haukastúlkna sem einfaldlega raðaði inn mörkum. Við vorum nánast undir allan fyrri hálfleikinn og Haukar náðu tveggja marka forystu í hálfleik, 17-15. Seinni hálfleikurinn var æsispennandi þar sem dómararnir leyfðu mikla hörku og við nýttum okkur það og brutum eins “gróft” og dómarinn leyfði. (þótt að sjálfsögðu nokkrir leikmenn færu aðeins yfir strikið og þar á meðal undirrituð). Undirrituð fékk tveggja mínútna brottvísun þegar 1 ½ mín var eftir af leiknum og staðan jöfn. En við vorum ekkert á því að gefa leikinn og Brynja Steinsen, gamli refur, lumar alltaf á einhverjum góðum fintum og skoraði mjög mikilvægt mark eftir gegnumbrot. Jolanta var komin í markið og gerði sér lítið fyrir og varði víti frá engri annarri en stórskyttunni Ramune Pekarskyte þegar 30 sek voru eftir af leiknum. Við fórum í sókn og Brynja fór í gegnum- brot og skaut bak við auglýsingarskiliti. Það sýnir enn og aftur hversu mikla reynslu og útsjónarsemi Brynja hefur að geyma eftir áralanga reynslu í boltanum. Dómarinn stoppaði ekki leikinn sem að ég vil hrósa þeim fyrir vegna þess að þeir stöðvuðu ekki leikinn þegar sams konar atvik átti sér stað í okkar garð. Þannig að þetta var tæpur en mjög mikilvægur sigur fyrir okkur og nú er bara að taka næsta leik sem er á næsta sunnudag kl 16.00 í Laugardalshöllinni. Hvet alla til að mæta þar sem við virðumst vera að ná mjög góðum takti.
Silla

Elfa að verða gömul

Þýski orkuboltinn okkar hún Elfa átti afmæli í síðustu viku og við valsstelpur viljum að sjálfsögðu óska henni innilega til hamingju með daginn!
Kellan er orðin 23 og hefur að sögn miklar áhyggjur af þessum "háa" aldri!!!! Við sem erum eldri og reynslumeiri getum nú sagt henni að það er ekkert að óttast...

Við vonumst til að fá pistla frá Elfu og hinum "útlendingunum" okkar fljótlega og það verður gaman að heyra hvernig lífið í atvinnumennskunni gengur fyrir sig.

Valur – Grótta

Gróttu stelpur sóttu okkur heim á þriðjudaginn og fóru ekki glaðar heim! Við sigruðum þær 29-24. Mikilvægur sigur þar sem þær voru aðeins búnar að tapa einum leik. Við byrjuðum illa og fengum mörg mörk á okkur utan af velli. Vorum ekki að standa vörnina vel. En þegar 15 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik náðum við að þjappa saman vörninni, í framhaldi kom markvarsla og hraðaupphlaup. Held svei mér þá að Silla verði fljótari með hverju árinu, gamla að gera gott mót! Við spiluðum agaðan sóknarleik og leiddum með 3 mörkum í hálfleik. Við byrjuðum svo seinni hálfleikinn vel og komumst 5 mörkum yfir. Eftir það fórum við að spila óagað og fengum á okkur mörk í bakið. En við leiddum allan seinni hálfleikinn og á síðustu 5 mínutunum náðum við að loka vörninni og yfirspila Gróttu stelpurnar. Kerfin okkar gengu upp og Pavla varði mikilvæga bolta. Silla, Ágústa og Pavla áttu góðan leik en ég mundi segja að liðsheildin hafi landað sigrinum. Allir stóðu sig vel og sýndi það sig í leiknum að við höfum að breiðan og góðan hóp. Áhorfendurnir voru frábærir að vanda og létu vel í sér heyra. Ég held að við séum komnar á gott skrið og er bara bjartsýn á næsta leik sem er á móti Haukum á Ásvöllum á sunnudaginn klukkan 20:00. Hvet alla til að mæta!
Kveðja Drífa.

mánudagur, október 16, 2006

Beggan að verða fullorðin


Hún átti afmæli á laugardaginn
Hún átti afmæli á laugardaginn
Hún átti afmæli hún Begga
Hún átti afmæli á laugardaginn

Já hún Begga okkar er orðin 25 ára gömul og fer að styttast í að hún verði tekin í fullorðinna kvenna tölu ;)
Af þessu tilefni vildum við Valsstelpur óska henni innilega til hamingju með áfangann. Vonum að þú hafir átt frábæran afmælisdag Begga mín og að þú hafir látið Bjarna dekra við þig :)

Begga er alltaf að koma sér betur og betur fyrir í Danaveldi bæði utan vallar og innan. Ef við þekkjum hana rétt verður hún búin að slá út landsliðsmarkvörð Dana áður en vetrinum lýkur...

miðvikudagur, október 11, 2006

HK-Valur

Við Valsdömur heimsóttum HK stúlkur laugardaginn síðastliðinn. Eftir góðan sigur á Stjörnunni í síðasta leik þurftum við að koma okkur niður á jörðina því HK stelpur eru heldur betur búnar að standa sig vel í byrjun móts. En við mættum mjög einbeittar í leikinn og gáfum tóninn strax á fyrstu mínútunum með hörku sóknarleik þótt að vörnin hafi verið nokkuð götótt. Þannig voru fyrstu mínúturnar nokkuð jafnar en svo þegar búið var að stoppa í götin í vörninni hjá okkur fórum við að sigla fram úr. Þar fór fremst í flokki Grímsdóttir sem gjörsamlega raðaði inn mörkunum úr horninu og náðum við því góðu forskoti sem við létum eiginlega aldrei af hendi það sem eftir lifði leiks.
Leikurinn var nokkuð hraður og skemmtilegur og mörg falleg tilþrif sáust. Brynja sýndi gamalkunna takta og átti til dæmis eitt hús úr ótrúlegu skoti. Habban lét reka sig útaf fyrir litlar sakir sem hún var nú ekki sátt við svo þegar hún kom inn á fauk hún strax út af aftur enda ekki þekkt fyrir nein vettlingatök. Markverðirnir vörðu vel, meðal annars eitt eða tvö víti (man ekki alveg).
Að öðru leiti er erfitt að taka einhvern einn út þar sem þetta var sigur liðsheildarinnar og allir leikmenn komu inn á og stóðu sig með prýði.
Eins og áður sagði var sigur okkar aldrei í hættu og mest náðum við 14 eða 15 marka forskoti í seinni hálfleik. Að vísu minnkaði það niður í tíu mörk með góðri hjálp dómaranna sem ákváðu að henda okkur útaf í hrönnum. Þá fengu HK stelpur heldur betur tækifæri til að minnka muninn því á kafla voru þær til dæmis fimm á móti okkur þremur. En þar sem við vorum svo heppnar að hafa Sillu ennþá í vörninni þá var eins og við værum fimm á móti fimm því þvílíkar fótahreyfingar hafa aldrei sést áður. Hún var á ljóshraða daman og komust HK-ingar því ekki langt á þessum kaflaJ
En öruggur tíu marka sigur var staðreynd og ljóst að við Valskonur erum á siglingu. Tveir erfiðir leikir eru reyndar framundan, fyrst við Gróttu og svo við Hauka. Þannig að það er á brattann að sækja fyrir okkur en ef við sýnum svona leik verður erfitt að stöðva Valsskvísu-hraðlestina.
Kveðja, Anna pæja

föstudagur, október 06, 2006

Dýr sigur. Rándýr sigur. (Habban skrifar)

Eftir að hafa drullað upp á bak í síðustu tveimur leikjum var ekki erfitt að mótivera sig fyrir leikinn gegn Stjörnunni. Við vildum sýna hinum frábæru stuðningsmönnum okkar að við gætum betur en þetta, við vildum skemmta þeim og okkur sjálfum og koma því á framfæri að við yrðum með í baráttunni í vetur. Ónefndur leikmaður Stjörnunnar hellti svo olíu á eldinn með því að lýsa því yfir að einu raunverulegu keppinautarnir þeirra í vetur væru Haukar! Þessi ónefndi leikmaður fær hér með sérstakar þakkir fyrir eina massívustu mótiveringu síðari ára!

Þrátt fyrir góðar meiningar og einbeittan vilja voru upphafsmínúturnar gegn Stjörnunni daprar af okkar hálfu. Færanýtingin var eins og áður...döpur. Eftir 5 mínútna leik var staðan 2-5 og tíu mínútum síðar 6-10. Við fórum illa með nokkur góð færi á að minnka muninn enn frekar, Stjarnan fór að hökta en við náðum ekki að færa okkar það almennilega í nyt. Pavla klukkaði nokkra rándýra bolta á mikilvægum augnablikum og síðustu 10 mínútur hálfleiksins fór Valsmaskínan að hrökkva í gírinn. Með breyttum varnarleik og innkomu gullplattans J og Öllunnar náðum við að minnka muninn í tvö mörk, 9-11.
Ónefndur spekingur ku hafa sagt í hálfleik að við myndum vinna leikinn 23-21, við misjafnar undirtektir, en gott er til þess að vita svona eftir á að sumir hafa tröllatrú á okkur!
Strax í upphafi seinni hálfleiks var nokkuð ljóst hvert stefndi, rauðklæddu dívurnar ætluðu sér sigur og spurningin var bara sú hversu stór hann yrði. Hvert glæsimarkið rak annað og fyrr en varði vorum við komnar fjórum mörkum yfir. Í síðari hálfleik náðum við að sýna hvers við erum megnugar, vörnin var hrikaleg og sóknarleikurinn gekk eins og smurð vél. Fjögurra og fimm marka forysta sló eilítið kæruleysi í mannskapinn og Stjarnan náði að minnka muninn, en jafnvel þótt einhverjir áhorfendur kunni að hafa verið orðnir órólegir vissum við allan tímann að málið væri dautt. Það þarf jú að halda spennu í þessu til að skemmta áhorfendum!

Liðið átti allt fínan leik, sérstaklega í seinni hálfleik, en líklega er ekki að nokkrum vegið þótt Pavla fái afhentan Hinn gullna trommukjuða.
Ágúst þjálfari fær sérstaka heiðurstilnefningu fyrir hreint út sagt ótrúlega takta á hliðarlínunni; stökkkrafturinn er ótrúlegur, hárstrokurnar kynþokkafullar og hraðinn sem hann náði frá tímavarðarborði út að enda varamannabekkjarins með því besta sem sést hefur í Höllinni. Það er ekkert smáræði í ljósi þess að á þessu sama gólfi hafa nokkrar helstu íþróttahetjur þessa heims sýnt allar sínar bestu hliðar.

Að lokum verðum við að þakka Sambakóngunum sérstaklega fyrir ómetanlegt framlag þeirra. Hinn frumsamdi sambataktur ku vera orðinn vinsæll bæði á google og youtube. Leitendur verða hins vegar fyrir vonbrigðum því Sambakóngarnir eru Valsmenn...og bara Valsmenn.

Hafrún Kristjánsdóttir

Tap gegn ÍBV - 30.sept

Eftir slæma byrjun í fyrsta leik var það harðákveðið lið sem flaug frá Reykjavíkurflugvelli til Vestmannaeyja, staðráðið í að koma til baka með 2 stig í farteskinu. Leikurinn byrjaði af miklum krafti þar sem liðin skiptust á að skora. Eitthvað gekk 3-3 vörnin þó ekki eins og hún á að gera og Eyjastúlkur áttu nokkuð auðvelt með að spila sig í gegnum hana í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn gekk hins vegar ágætlega og var staðan 17-15 heimaliðinu í vil. Í seinni hálfleik gekk vörnin mun betur og þegar um 7-8 mínútur voru eftir var Eyjaliðið bara búið að skora 7 mörk. Okkur gekk aftur á móti herfilega að finna leiðina framhjá markverði ÍBV, sérstaklega úr hornunum, og það varð okkur að falli í leiknum. Eftir að hafa náð forystunni, 26-24, þegar tæpar 10 mínútur voru eftir hrökk allt í baklás, við misstum menn útaf, klúðruðum hverju dauðafæri á fætur öðru og hreinlega færðum Eyjastúlkum sigurinn á silfurfati. 30-26 urðu lokatölurnar sem er of mikill munur miðað við gang leiksins en við freistuðum þess að vinna upp forskotið með því að spila maður á mann í lokin. Ljósu purnktarnir eru að það var miklu meiri kraftur og stemning í liðinu heldur en í Fram leiknum. Það er eitthvað sem við ætlum að byggja á en það er ljóst að við vinnum fáa leiki með jafn lélegra nýtingu á dauðafærum og í þessum leik.

Jafntefli gegn FRAM - 26.sept

Fyrsti leikur vetrarins var á heimavelli gegn Fram. Mikill hugur var í liðinu og við byrjuðum leikinn af miklum krafti. Komumst fljótlega í 7-2 og yfirspiluðum Framvörnina í hverri sókninni á fætur annarri. Skotin voru hins vegar ekki nógu vel nýtt og Kristina markvörður kom í veg fyrir að forskot okkar í hálfleik var ekki meira en 4 mörk. Í byrjun seinni hálfleiks var munurinn fljótlega orðinn 6 mörk en þá var eins og við Valsstelpur héldum að leikurinn væri búinn. Við spiluðum eins og við ætluðum að klára leikinn á þægilegu nótunum í stað þess að keyra áfram af sama krafti. Andleysið réði ríkjum það sem eftir lifði leiks og liðið spilaði einn versta hálfleik sinn fyrr og síðar. Lokatölur urðu 25-25 sem eru engan veginn ásættanleg úrslit. Liðið var allt frekar slakt þó margir leikmenn ættu ágætis rispur en Pavla stóð sig vel í markinu og varði um 20 bolta. Það versta við leikinn var að heyra hvað áhorfendum fannst liðið virka stemningslaust og áhugalítið. Það er að sjálfsögðu eitthvað sem þarf að bæta og ætlunin er að laga ekki seinna en strax. Við lofum okkar yndislegu stuðningsmönnum að mæta með vel stemmt og baráttuglatt lið í alla leiki héreftir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?