föstudagur, október 06, 2006
Jafntefli gegn FRAM - 26.sept
Fyrsti leikur vetrarins var á heimavelli gegn Fram. Mikill hugur var í liðinu og við byrjuðum leikinn af miklum krafti. Komumst fljótlega í 7-2 og yfirspiluðum Framvörnina í hverri sókninni á fætur annarri. Skotin voru hins vegar ekki nógu vel nýtt og Kristina markvörður kom í veg fyrir að forskot okkar í hálfleik var ekki meira en 4 mörk. Í byrjun seinni hálfleiks var munurinn fljótlega orðinn 6 mörk en þá var eins og við Valsstelpur héldum að leikurinn væri búinn. Við spiluðum eins og við ætluðum að klára leikinn á þægilegu nótunum í stað þess að keyra áfram af sama krafti. Andleysið réði ríkjum það sem eftir lifði leiks og liðið spilaði einn versta hálfleik sinn fyrr og síðar. Lokatölur urðu 25-25 sem eru engan veginn ásættanleg úrslit. Liðið var allt frekar slakt þó margir leikmenn ættu ágætis rispur en Pavla stóð sig vel í markinu og varði um 20 bolta. Það versta við leikinn var að heyra hvað áhorfendum fannst liðið virka stemningslaust og áhugalítið. Það er að sjálfsögðu eitthvað sem þarf að bæta og ætlunin er að laga ekki seinna en strax. Við lofum okkar yndislegu stuðningsmönnum að mæta með vel stemmt og baráttuglatt lið í alla leiki héreftir.